Skýrsla afreksnefndar

Afreksstarf Golfklúbbsins Odds var með nokkuð hefðbundna sniði í ár. Yfir vetrartímann höfum við getað reitt okkur á velvilja okkar nágranna í GKG og fengið að nýta aðstöðu GKG í Kórnum í Kópavogi og sumaræfingar hafa svo farið fram á okkar svæði á Urriðavelli. Starfið gekk ágætlega síðasta vetur en þegar við horfum fram á skipulagningu fyrir komandi ár 2024 finnum við að sú mikla fjölgun sem varð á iðkendafjölda í barna og unglingastarfi setur okkur í erfiða stöðu á komandi vetri. Auðvitað er það þróun sem við vildum sjá og lögðum upp með á síðasta ári þegar við réðum inn íþróttastjóra í fullt starf. Barna og unglingastarf fær forgang á þá tíma sem eru í boði en ljóst að staðan núna er sú að allir hópar eru fullir og fjölgun í barna og unglingastarfi er nánast ómöguleg.  Við þurfum því nauðsynlega að skoða hvað hægt er að gera, ýta enn frekar á Garðabæ og fá þá í lið með okkur að byggja upp aðstöðu fyrir íþróttastarf.

Æfingaárið hófst um miðjan janúar 2023. Við sameinuðum æfingahópa og nýttum fimmtudags og föstudags eftirmiðdag fram á kvöld undir æfingar okkar hópa í ár ásamt því að ungmenni í barna og unglingastarfi æfðu 3 klst í viku. Æfingar voru vel sóttar, við æfðum inni fram undir lok mars og þá færðum við æfingar á okkar æfingasvæði Læring þar sem við áttum góðar stundir.

Á árinu áttum við kylfinga á fjölmörgum Íslandsmótum á vegum golfsambandsins og hápunktur sumarsins var að sjálfsögðu þátttaka hjá okkar bestu kylfingum á heimavelli þegar Íslandsmótið í golfi var haldið á Urriðavelli dagana 10. – 13. ágúst. Alls áttum við 7 fulltrúa í mótinu, þær Hrafnhildi Guðjónsdóttur og Auði Björt Skúladóttur í kvennaflokki og Bjarka Þór Davíðsson, Ottó Axel Bjartmarz, Axel Óla Sigurjónsson, Birki Þór Baldursson og Rögnvald Magnússon í karlaflokki. Hjá körlunum náðu þrír kylfingar í gegnum niðurskurð, þeir Rögnvaldur, Bjarki og Ottó og náði Rögnvaldur efst upp töfluna af þeim þremur og hafnaði í 37. sæti. Í kvennaflokki komust okkar konur ekki á flug og náðu hvorugar í gegnum niðurskurð. Á íslandsmótinu í holukeppni áttum við einn fulltrúa í kvennaflokki, þar sem Hrafnhildur Guðjónsdóttir tók þátt. Keppt er fyrst í höggleik þar sem Hrafnhildur hafnaði í 17. sæti en 16 efstu komast áfram í einstaklingsleiki og því missti hún naumlega af sæti í 16 kvenna úrslitum.

Við áttum verðlaunahafa á Íslandsmóti eldri kylfinga sem haldið var í sandgerði um miðjan júlí. Björg Þórarinsdóttir hafnaði í 3. sæti í flokki 65 + og á mótinu áttum við einnig einn fulltrúa í viðbót í flokki 50 + þar sem Óskar Bjarni Ingason keppti. Við óskum Björg innilega til hamingju með sín verðlaun.

 

Einn megintilgangur æfingastarfsins er að undirbúa og senda fulltrúa til leiks á Íslandsmót golfklúbba í þeim aldurflokkum sem við erum með æfingahópa. Í ár sendum við sex keppnissveitir til leiks í fullorðinsflokkum,  Meistaraflokka karla og kvenna, lið 50+ karla og kvenna og svo fulltrúa 65 + karla og kvenna sem tóku þátt í LEK móti golfklúbba (óformlegt Íslandsmót þess aldursflokks). Í yngri keppnishópum áttum við svo einnig flotta fulltrúa og hægt er að lesa um árangur þeirra í skýrslu um barna og unglingastarf.

Meistaraflokkur kvenna

Meistaraflokkur kvenna keppti í efstu deild kvenna á Hólmsvelli hjá Golfklúbbi Suðurnesja við einstaklega góðar aðstæður þó leirulognið hafi bæði farið hratt yfir og hægt. GO konur tryggðu sæti sitt í efstu deild kvenna með góðum sigri á Nesklúbbnum í lokaleik mótsins. Lið GO skipuðu þær Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Auður Björt Skúladóttir, Auður Skúladóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Etna Sigurðardóttir, Birgitta Ösp Einarsdóttir, Eydís Inga Einarsdóttir og Helena Kristín Brynjólfsdóttir. Liðstjóri var Giovanna Steinvör Cuda og Phill Hunter fylgdi liðinu alla keppnisdaga.

Meistaraflokkur karla

Við áttum flotta fulltrúa frá meistaraflokki karla þar sem okkar kappar léku í 2. deild og keppt var á Garðavelli á Akranesi hjá Golfklúbbnum Leyni. Lið GO var í A-riðli með liðum GKB (Kiðjaberg), GSE (Setberg) og liði GSS ( Skagafjarðar). Eftir hörkuleiki í riðlakeppni enduðu okkar kappar í þriðja sæti og því hófst keppni við lið Nesklúbbsins, Kiðjabergs og Fjallabyggðar um að halda sér í deildinni. Lið GO fyrst við lið Fjallabyggðar og hafði þar góðan sigur og tryggði sér um leið sæti í deildinni og leik um 5. sætið við lið Nesklúbbsins sá leikur var spennandi en Nesklúbburinn hafði þó nokkuð öruggan sigur 4 -1 á endanum og því ljóst að 6. sætið var okkar manna í ár.

Lið GO skipuðu Rögnvaldur Magnússon, Tómas Sigurðsson, Skúli Ágúst Arnarson, Axel Óli Sigurjónsson, Bergur Dan Gunnarsson, Birkir Þór Baldursson, Ottó Axel Bjartmarz og Bjarki Þór Davíðsson. Liðsstjóri var Óskar Bjarni Ingason.

Keppnislið GO 50 + karlar

Golfkúbburinn Oddur átti glæsilega fulltrúa á Íslandsmóti golfklúbba í 2. deild karla 50 + sem leikið var á Kirkjubólsvelli í Sandgerði. Eftir tvö jafntefli og einn sigur í riðlakeppni var ljóst að okkar kappar væru komnir í undanúrslit og í undanúrslitum mætti lið GO sterku liði GM.  Þar sýndu okkar kappar flottan leik og báru sigur úr býtum með 3,5 vinningi gegn 1,5 vinningi og því ljóst að eftir væri einungis leikur um sæti í 1. deild og að andstæðingar okkar manna væru heimamenn í liði GSG. Fyrstu tveir keppnisdagarnir skörtuðu sínu fegursta þar sem sól og blíða lék við keppendur en þegar mætt var til leiks í úrslitleik á lokadegi mætti keppendum sterkir 10 – 12 metrar á sekúndu og nokkuð þétt rigning en úrslit í hörkuspennandi lokaleiknum réðust á 19 holu í bráðabana eftir hörkurimmu og okkar menn stóðu uppi sem sigurvegarar.

Lið GO var þannig skipað, Óskar Bjarni Ingason, Svavar Geir Svavarsson, Jóhann Pétur Guðjónsson, Sigurhans Vignir, Phill Hunter, Bjartur Logi Finnsson, Davið Arnar Þórisson, Kristján Þórir Hauksson og Einar Viðarsson Kjerúlf. Liðsstjóri var svo Guðjón Steinarsson.

 

Keppnislið GO 50 + konur

Íslandsmót golfklúbba í flokki kvenna +50 ára fór fram á Strandarvelli á Hellu dagana 24.-26. ágúst og þar áttum við glæsilega fulltrúa. Lið GO kvenna lék í A-riðli með sterkum sveitum GR, GKG og GS. Í 1. umferð mættu okkar konur nágrönnum okkar í GKG og þar höfðu GKG konur sigur 4 -1. Í 2. umferð var leikur við lið GR kvenna sem tapaðist 5 – 0 og því ljóst að síðasti leikur í riðlakeppni við lið GS myndi geta komið okkar konum í betri stöðu til að tryggja sæti okkar kvenna í deildinni sem varð raunin og okkar konur báru 4 -1 sigur úr býtum.

Í 4. umferð var leikur við lið Leyniskvenna og okkar konur voru staðráðnar í að koma sér í leik um 5. sætið og sýndi flottan leik og unnu 4 -1  Í leik um 5. sætið léku okkar konur við lið Nesklúbbsins og þar hafði Nesklúbburinn sigur og því ljóst að okkar konur myndu hafna í 6. sæti mótsins sem var flottur árangur.

Lið GO var þannig skipað: Dídí Ásgeirsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Anna María Sigurðardóttir, Kristjana S. Þorsteinsdóttir, Ágústa Arna Grétarsdóttir, Berglind Rut Hilmarsdóttir, Aldís Björg Arnardóttir, Björg Þórarinsdóttir og Helga Björg Steinþórsdóttir. Liðsstjóri var Rögnvaldur Magnússon.

Keppnislið GO 65 + karlar

Við áttum fulltrúa á óformlegu Íslandsmóti golfklúbbi í flokki 65 ára og eldri sem haldið hefur verið í þrígang af LEK, samtökum eldri kylfinga. Okkar kappar léku í Öndverðarnesi og áttu ekki sína bestu daga og þar sem fyrirkomulagið er 9 holu leikir má lítið bregða út af og þegar allir leikir höfðu klárast enduðu okkar kappar í 8. sæti.

Liðið skipuðu þeir   Gunnlaugur Magnússon, Ragnar Gíslason, Jóhannes Rúnar Magnússon,  Páll Kristjánsson, Guðmundur Ragnarsson, Þór Geirsson og Páll Kolka Ísberg.

1.deild 65 + í Öndverðarnesi.
Lokastaða:
1.sæti Golfklúbbur Reykjavíkur
2.sæti Nesklúbburinn
3.sæti Golfklúbbur Suðurnesja
4.sæti. Golfklúbburinn Keilir
5.sæti Golfklúbbur Öndverðarness
6.sæti Golfklúbbur Mosfellsbæjar
7.sæti Golfkl. Kópavogs og Garðabæjar
8.sæti Golfklúbburinn Oddur

 

Keppnislið GO 65 + konur

GO konur áttu titil að verja á Íslandsmóti golfklúbba þetta árið en þær voru fyrstu sigurvegarar þessa mót sem haldið var fyrst árið 2022 í kvennaflokki. Lið GO hafnaði í 5. sæti með 0,5 vinning eins og Keiliskonur en fleiri stig í leikjum við önnur lið.

Liðið skipuðu þær Björg Þórarinsdóttir, liðsstjóri, Ingibjörg Sigurrós Helgadóttir, Guðrún Erna Guðmundsdóttir, Kristín Erna Guðmundsdóttir, Margrét Aðalsteinsdóttir og Hervör Lilja Þorvaldsdóttir

Hrafnhildur Guðjónsdóttir,

formaður afreksnefndar GO