Skýrsla mótanefndar
Vorið 2023 tók heldur hryssingslega á móti okkur sem gerði það að völdum að opnunarmót Urriðavallar féll niður í ár og innanfélagsmótaröð byrjaði seinna en í hefðbundnu ári en var þó haldin með glæsibrag.
Mótanefnd kemur eingöngu að innanfélagsmótum sem klúbburinn heldur, Collab-mótaröðinni, Meistaramóti Odds, opnum mótum sem féllu reyndar niður í ár og Bændaglímunni sem starfsmenn klúbbsins skipuleggja almennt.
Í Collab-mótaröðinnu í ár voru skráð 28 lið þar sem spilaðar voru fimm umferðir, þar sem mótaröðin hófst seint í ár var brugðið á það ráð að sameina tvo mót í lokamótinu og því var heilmikið undir í því móti í ár og 3000 stig í boði ef liði tækist að sigra bæði mótin svo ýmistlegt gat gerst í lokaumferðinni allt fram á síðasta höggi.
Veitt eru verðlaun til sigurvegara hverrar umferðar en í lokahófi voru veitt verðlaun til efstu 10 liðanna. Í ár töldu stig úr 4 bestu hringjunum yfir sumarið og þegar lokastig voru reiknuð í ár var bæði uppsveifla og niðursveifla á efstu liðum og úr varð að lið Oddaverja stóð uppi sem sigurvegarar með 3712,5 stig, í öðru sæti var liðið „603“ með 3427,5 stig og sigurvegarar ársins á undan DoubleD Lakkalakk náðu þriðja sæti með 3262,5 stig aðeins 22,5 stigum á undan liði Fyrirsætanna sem voru fyrir umferðina sigurstranglegar.
Sigurlið Collab mótaraðarinnar
Meistaramótið fór fram 1. – 8. Júlí á mætti segja að veðurguðirnir hafi verið okkur frekar hliðhollir, fyrsta daginn rigndi eins og enginn væri morgundagurinn en þegar guðirnir voru búnir að skvetta vel úr sér var blíða það sem eftir lifði móts. Í mótið voru skráðir 336 kylfingar sem er stærsta meistaramót Odds í sögunni. Meðal skor á 18 holur í mótinu var 98,5 högg en slegin voru um 20.000 högg. Við í mótanefnd viljum þakka þeim sem hjálpuðu okkur við ræsingu í mótinu og dómarastörf. Mótið stóð yfir í átta daga þarf sem leikdögum var skipt niður á flokka en að lokum stóðu uppi sem klúbbmeistarar GO 2023, Hrafnhildur Guðjónsdóttir í 8. sinn og Ottó Axel Bjartmarz 2. árið í röð. Hægt er að skoða úrslit úr mótinu hér, úrslit meistaramóts.
Keppnin um holumeistara Odds fór fram í ár og fyrirkomulagið á því móti er að mótið er tvískipt í karla- og kvennaflokk og sigurvegarar þar mætast svo í lokin í hreinum úrslitaleik um holumeistaratitil Odds. Í kvennaflokki sigraði Guðrún Erna Guðmundsdóttir og í karlaflokki Kristinn Bjarni Heimisson en Holumeistari Odds í ár er Guðrún Erna Guðmundsdóttir
Við endum að sjálfsögðu árið á okkar skemmtilegu Bændaglímu þar sem leikin eru hin ýmsu afbrigði golfleiks ásamt þrautum á leið okkar í holu á 27 brautum og var frábært hvernig starfsmenn Odds settu þetta upp fyrir okkur til að leika okkur áður en völlurinn fór í vetrarhvíld. Á hverju ári leitum við að bændum til að fara fyrir hvoru liði svo það er ekki seinna vænna en að auglýsa eftir bændum fyrir Bændaglímu 2024. Nánari upplýsingar um verkefni bænda fást hjá formanni mótanefndar eða starfsmönnum í skála.
Að lokum sem formaður mótanefndar og skipuleggjandi sjálfboðaliða á Íslandsmótinu í golfi 2023 sem fram fór á Oddi dagana 10.-13. ágúst vil ég þakka öllum sem lögðu okkur lið við hin ýmsu störf í mótinu, án ykkar kæru sjálfboðaliðar hefði þetta ekki verið eins glæsilegt og raun bar vitni og á ég ykkur öllum að þakka að mér var veittur sá heiður að vera valinn sjálfboðaliði Golfsambandsins 2023, þið eigið stóran hlut í þessum heiðri.
Að lokum viljum við í mótanefnd þakka fyrir samstarfið og vonum að við getum áfram leitað til ykkar við ræsingu og önnur verkefni í Meistaramótinu okkar og öðrum mótum á okkar golfvelli. Það væri frábært ef þú kæri félagsmaður vildir koma og taka þátt í mótanefnd með okkur.
Megi veturinn fara vel með okkur öll svo við komum hress og kát saman á okkar fallega Urriðavöll næsta vor til að leika okkur við það sem við elskum, hið yndislega golf. Megi golf-guðirnir vera með okkur.
Kær kveðja
Formaður mótanefndar
Laufey Sigurðardóttir