Skýrsla stjórnar

 Aðalfundur GO 2023

Kæru félagar.

Ég vil þakka öllum félögum í Golfklúbbnum Oddi fyrir samstarfið á nýliðnu starfsári sem var viðburðarríkt líkt og síðasta ár.  Völlurinn kom undan vetri í mjög slæmu ástandi og má segja að þrettán grín hafi verið ónýt.  Mikil vinna starfsmanna við að koma vellinum af stað sýndi lítinn árangur fyrr en í júlí og í byrjun ágúst héldum við í Golfklúbbnum Oddi glæsilegasta Íslandsmót seinni ára.  Vil ég þakka sérstaklega Tryggva Ölver Gunnarssyni vallarstjóra og hans fólki fyrir að hafa unnið algert afrek við það að gera svæðið allt svona glæsilegt.

Áhorf á beina útsendingu var það mesta sem verið hefur og framkvæmd RÚV á henni var til fyrirmyndar.  Uppsafnað áhorf var um þrjátíuþúsund manns í beinni útsendingu og um fjörutíuþúsund horfðu á í spilara RÚV.  Starfsmenn náðu að koma vellinum í frábært stand og sjálfboðaliðar undir stjórn Laufeyjar Sigurðardóttir gerðu upplifun hjá keppendum og áhorfendum af mótinu, eins og best verður á kosið.  Eitthvað um eittþúsund manns voru á svæðinu á lokadegi mótsins.  Spennan náði hámarki og úrslitin réðust á lokadegi þegar Ragnhildur Kristinsdóttir og Logi Sigurðsson voru krýndir Íslandsmeistarar.

Laufey okkar var svo valin sjálfboðaliði ársins á Golfþingi GSÍ nú í haust og er hún vel að því komin.  Það má segja að Íslandsmótið hafi verið auglýsingin sem við þurftum ekki, en um hundrað og fimmtíu manns sóttu um aðild að klúbbnum næstu tvær vikur eftir mótið.   Tæplega sjöhundruð manns eru nú á biðlista eftir að fá að ganga í klúbbinn og munum við í vetur væntanlega bjóða aðild að klúbbnum fyrir alla þá sem sóttu um 2021.

Á árinu var skipulagsvinna vegna stækkunar golfvallarins lokið og er gaman að segja frá því að fyrr í dag var friðun hraunsins staðfest af ráðherra umhverfismála.  Nú er nefnd sem vinnur að hagkvæmnisathugun, að klára sína vinnu og vonandi fylgir ákvörðun landeiganda um að hefja framkvæmdir við stækkun í framhaldinu.  Við bíðum því ákvörðunar Styrktar og líknarsjóðs Oddfellow að fara í framkvæmdir, en það getur tekið einhvern tíma.

Það gleður mig mjög að síðastliðið ár sem fyrr, hefur stjórnin verið samhent í sínum störfum og þakka ég þeim, þeirra störf á árinu.  Töluverð vinna fór í undirbúning og framkvæmd Íslandsmóts og kom stjórnin töluvert að því starfi.  Auðunn Örn Gylfason hverfur nú úr stjórn eftir sex ára setu og þökkum við honum kærlega fyrir hans starf.

Fastráðnir starfsmenn voru þeir sömu og í fyrra en heildarfjöldi vallarstarfsmanna yfir sumarmánuðina jókst aðeins og ekki var vanþörf á, enda sér þess merki í launakostnaði í ársreikningi klúbbsins.  

Hrafnhildur Guðjónsdóttir hefur leitt uppbyggingu íþróttastarfs Golfklúbbsins Odds af miklum krafti og er svo komið að ekki er pláss fyrir marga í viðbót.  Stjórn ákvað á þessu ári að nema staðar í fjölgun barna á æfingum og verður það verkefni næstu stjórnar að þróa það starf áfram með barna- og unglingaráði.  Mótanefnd GO í forsvari Laufeyjar Sigurðardóttur hefur staðið sig einstaklega vel að mótahaldi á árinu en almennu mótahaldi var sniðinn þröngur stakkur þetta árið vegna lélegs vors og Íslandsmóts. Í meistaramóti GO voru þáttakendur 336 sem er sennilega met.  Klúbbmeistari karla er Ottó Axel Bjartmarz og Klúbbmeistari kvenna Hrafnhildur Guðjónsdóttir. 

Nánar um íþróttastarfið í skýrslum barna og unglinganefndar og afreksnefndar.

Skráðir félagsmenn í Oddi voru 1.744 í lok ársins. Af þeim eru 1.289 með fulla félagsaðild en 455 félagar eru með Ljúflingsaðild. Eins og áður segir eru um tæplega sjöhundruð, væntanlegir félagar á biðlista og ljóst að lítill hluti þeirra muni fá inngöngu á komandi tímabili og þreytist ég ekki á að benda á þetta þegar rædd eru stækkunarmöguleikar golfvallarins. 

Kvennanefnd, mótanefnd og sjálboðaliðum, sem störfuðu við Íslandsmótið, færi ég sérstakar þakkir fyrir þeirra störf á árinu. Það var eftir því tekið hvað það var samhentur hópur sem tók á móti landsins bestu kylfingum hér í sumar.   Höllu Bjarnadóttur sem lætur nú að störfum í kvennanefnd GO þökkum við innilega fyrir hennar framlag og tíma.

Mikil aukning í golfíþróttinni hér á landi endurspeglaðist í aukinni aðsókn á golfnámskeið og uppselt var á öll golfnámskeið sem boðið var uppá í sumar og það var verulega erfitt að fá einkatíma hjá golfkennurum okkar. Æfingasvæðið var nánast fullt megnið af sumrinu og á álagstímum er næstum ómögulegt að bæta við þjónustu. Í vetur verður æfingasvæðið stækkað um 2-3 bása og er sú stækkun hugsuð fyrir kennslu; bæði æfingahópa og einkatíma. Þetta er einfaldasta leiðin til að fjölga plássum en æfingasvæðið annar ekki eftirspurn.

Á tímabilinu 28. maí – 16. október 2023 voru leiknir 34.329 hringir á Urriðavelli í samanburði við 41.770 hringi 2022.   Hér er því um að ræða verulega fækkun en bæði var tímabilið tveimur til þremur vikum styttra en í venjulegu ári og einnig voru verilegar takmarkanir á því hvað hægt var að skrá af rástímum.  Minnast starfsmenn vallarins þess ekki að hann hafi verið opnaður svo seint áður.  Þá var reynt að minnka álagið á vellinum vegna lélegs ástands fyrripart sumars.  Sú aðferð að ræsa út á fyrsta og tíunda teig núna í lok sumars heppnaðist vel og er ekki ólíklegt að verði einnig gert næsta haust.

Áfram var unnið að endurbótum á fremri teigum bæði á þriðju og sjöundu braut.  Mestur kraftur starfsmanna fór þó í að koma grasvexti af stað eftir erfiðan vetur og að vekja flatir vallarins til lífs en eins og áður segir voru þær margar í mjög slæmu standi í vor.  Unnið var með gróðurdúka, flatirnar sandaðar og sáðar ásamt því að áburðargjöf var meiri en flest ár.  Kostnaðarauki golfklúbbsins af þessum framkvæmdum er um fimmtán milljónir, bæði í efniskostnaði og launum. En ef ekki væri fyrir góðan rekstur undanfarið, hefði svona slæmt vor sett rekstur golfklúbbsins á hliðina, sem hefði haft þær afleiðingar að taka mörg ár að vinna úr. Það er því mikilvægt að Golfklúbburinn Oddur sé áfram rekinn með afgangi en einnig er áfram til staðar veruleg þörf til endurnýjunar búnaðar.

Verkefnin sem unnið er að núna, eru áðurnefnd stækkun á æfingasvæðinu og nýr fremsti teigur á 12. braut en sá teigur hefur setið eftir en verður nú uppbyggður með vökvunarkerfi.  Það er nauðsynlegt en þegar völlurinn var upphaflega lagður var ekki gert ráð fyrir svo miklu álagi á fremstu teiga.  Þá er verið að skoða hvernig við fjölgum bílastæðum en það er verkefni næstu stjórnar.

Fjölgun bása sem ég hef nefnt, er ekki það eina sem unnið er að á æfingasvæðinu.  Nýrrar stjórnar bíður það verkefni að fjárfesta í sjálfvirkum tínsluþjarka en launakostnaður við að hirða bolta á æfingasvæðinu er í dag helsti kostnaðurinn við rekstur þess. Þá er haldið áfram að fjölga sláttuþjörkum og mun það verkefni halda áfram.  Við höfum, í samstarfi við GOF, staðið í að endurnýja búnað til að hirða golfvöllinn.  Fjárfestu GO og GOF fyrir samtals um 55 milljónir króna á síðastliðnu ári. Má þar helst nefna tvær nýjar rafdrifnar flatarsláttuvélar en hver vél kostar tólf og hálfa milljón króna.   Við lítum svo á að núverandi endurnýjunarþörf búnaðar sé um 20 milljónir á ári og verður áfram leitast við að viðhalda þeirri getu.  Slík endurnýjunarþörf kallar á að klúbburinn sé rekinn með reglulegum hagnaði og hann ber að tryggja í rekstraráætlun.

Undanfarin ár hefur Golfklúbburinn farið í verulegt viðhald á golfskálanum að utan sem innan og nemur kostnaður við það um þrjátíu og tveimur milljónum á síðustu fjórum árum.  Þessi kostnaður hefur eingöngu fallið á Golfklúbbinn Odd en bæði landeigandi eða leigusalinn GOF hafa ekki séð sér fært að taka þátt í þessu viðhaldi.

Á árum þar sem við hýstum tvö stór golfmót hefur stjórn og starfsmenn takmarkað aðgengi utanaðkomandi aðila að Urriðavelli til að tryggja félagsmönnum bætt aðgengi.  Þetta hefur rýrt tekjur en í nýrri fjárhagsáætlun sem lögð verður fyrir fundinn er aðeins dregið úr þessum áherslum.  Á móti kemur að Oddur mun ekki hýsa neitt mót GSÍ á næsta ári og verðum við eini stóri klúbburinn á höfuðborgarsvæðinu sem það gerir.

Á Íslandsmótinu í höggleik, sem haldið var hjá okkur í sumar, var það staðfest að Urriðavöllur er einn besti golfvöllur landsins og Golfklúbburinn Oddur sá golfklúbbur sem er hvað best til þess fallinn að halda slíkt mót á Íslandi.  Starfsmenn og sjálfboðaliðar unnu saman sem ein hönd og  gerðu þetta allt sem best úr garði svo að keppendur nytu sín. Íslandsmótið á afmælisári verður krúnudjásn í sögu klúbbsins sem við munum getað vitnað um og montað okkur af, næstu áratuginn.  Það að við höfum komið golfvellinum okkar í keppnishæft ástand fyrir mótið var afrek.  Afrek sem starfsmenn lögðu nótt við nýtan dag að ná.  Og það heppnaðist, vegna þess að starfsmenn settu mikla orku  og metnað í verkefnið og klúbburinn gat ráðstafað fjármunum í að gera völlinn okkar stórkostlegan.

Sjöunda árið í röð er hagnaður af rekstri golfklúbbsins. Má það bæði rekja til fullrar skráningar félagsmanna en einnig til aukins umfangs á öðrum sviðum.  Aukið umfang hefur kallað á aukinn starfsmannafjölda til að sinna svæðinu og gestum. Framkvæmdastjórinn mun fara yfir reikninga klúbbsins síðar á fundinum. 

Árið 2023 hélt Golfklúbburinn Oddur upp á 30 ára afmæli sitt og var hápunkturinn klárlega áðurnefnt Íslandsmót.  Við hefðum viljað hafa fleiri viðburði, en við þurftum að gefa vellinum þá hvíld sem þurfti.

Ég vil ljúka þessari skýrslu með því að þakka starfsmönnum klúbbsins fyrir vel unnin störf og öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna óeigingjarnt starf í þágu klúbbsins. Við færum þeim samstarfsaðilum sem lögðu starfseminni lið á liðnu ári sérstakar þakkir. Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum og Hlöðveri Kjartanssyni áheyrnarfulltrúa GOF fyrir samstarfið. Ég er þakklátur fyrir að hafa haft ykkur með mér í liði á árinu sem nú er að líða.

Stjórn Odds þakkar samstarfið á árinu og óskar félagsmönnum sínum gæfu og gleði á nýju ári og þakkar fyrir ánægjulegar samverustundir á árinu sem er að líða.

f.h. stjórnar GO
Kári Sölmundarson